Það heyrir ávallt til tíðinda þegar að nýjir meðlimir eru valdir í kokkalandslið Íslands en nú á hádegi var kokkalandsliðið kynnt og þar gætir töluverðra breytinga.
Að sögn Ylfu Helgadóttur, annars þjálfara landsliðsins er kokkalandsliðið töluvert frábrugðið hefðbundnum landsliðum. „Þetta er rosalega tímafrekt og allur undirbúningur er langur og strangur,” en valið núna miðar að þvi að velja það lið sem mun keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti landsliða í matreiðslu sem fram fer í Lúxemburg á næsta ári.
Valið fer fram með þeim hætti að fyrst þurfa áhugasamir að gefa kost á sér. Verkefnið sé í eðli sínu það stórt að ekki er hægt að ganga sjálfkrafa út frá því að fólk hafi kost á að sinna því þótt í því felist mikil upphefð. Því sé ferlið með þessum hætti og síðan er valið úr hópi umsækjenda.
Jafnframt fylgir liðinu öflugur hópur aðstoðarmanna og segir Ylfa að þeirra vinnuframlag sé litlu minna en landsliðsins. Því sé algengt að fólk byrji sem aðstoðarmenn og fari svo upp í sjálft landsliðið.
Liðið skipa þrettán einstaklingar en þar af eru tveir þjálfarar; þau Ylfa, sem er yfirmatreiðslumaður á KOPAR og Garðar Kári Garðarsson yfirmatreiðslumaður á Strikinu. Að auki er liðið með fimm faglega ráðgjafa þannig að öll umgörð í kringum liðið er mikil og góð. Að sögn Ylfu eru töluverðar breytingar á liðinu en það skipa nú fjórir einstaklingar sem áður voru aðstoðarmenn, einn sem er að koma aftur eftir fjarveru og síðan eru tveir alveg nýjir.
Það verður spennandi að fylgjast með landsliðinu á komandi misserum enda öflugur hópur sem á eftir að láta að sér kveða.
Landslið Íslands skipa þau Ylfa Helgadóttir og Garðar Kári Garðarson sem jafnframt eru þjálfarar liðsins. Hafsteinn Ólafsson, Hrafnkell Sigríðarson, Ari Þór Gunnarsson, Maria Shramko, Georg Arnar Halldórsson, Sigurður Ágústsson, Chidapha Kung, Kara Guðmundsdóttir, Þorsteinn Geir Kristinsson, Denis Grbic, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir og Snædís jónsdóttir, sem gegnir hlutverki yfir-aðstoðarmanns