Íslenska kokkalandsliðið keppir á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg síðar á árinu og fylgir eftir framúrskarandi árangri liðsins frá síðasta móti sem skilaði liðinu í 5. sæti. Liðið er á lokaspretti í sínum 18 mánaða undirbúningi en æfingar hafa staðið yfir í 12 mánuði og ná hámarki með haustinu. Stuðningur íslenskra fyrirtækja skiptir sköpum fyrir Kokkalandsliðið og er því mikið ánægjuefni að tilkynna að Ísey skyr hefur gengið til liðs við liðið sem einn bakhjarla þess.
Ylfa Helgadóttir er þjálfari Kokkalandsliðsins; „Við leggjum mikið upp úr því að sýna það allra besta úr íslenskri matarhefð á nútímalegan hátt og þess vegna er skyrið alltaf partur af okkar matseðlum. Með Ísey skyri getum við framreitt hágæða rétti sem þykja um leið passa tíðarandanum og falla í kramið hjá bæði gestum og dómurum sem taka út matinn okkar og vinnuna. Ísey skyr hefur átt mikilli velgengni að fagna á erlendri grundu líkt og liðið okkar og erum við því viss um að þetta samstarf muni auka hróður beggja sem víðast.“
Heimsmeistaramót í matreiðslu, er haldið á fjögurra ára fresti og fer fram dagana 23.-28. nóvember í Lúxemborg. Á mótinu mætast margir af færustu kokkum heimsins og þar er keppt í tveimur greinum. Annars vegar er keppt í svokölluðu köldu borði eða „Culinary Art Table“ og hins vegar í heitum réttum eða „Hot Kitchen“. Í keppninni um heitu réttina er útbúinn þriggja rétta matseðill með forrétti, aðalrétti og eftirrétti sem eldaður er frá grunni á keppnisstað fyrir 110 gesti. Kokkalandsliðið vinnur með alíslenskar áherslur í gegnum keppnina og lögð er mikil áhersla á sérvalið sígilt íslenskt hráefni. Hráefni þetta er notað til að útbúa þriggja rétta heita máltíð og mun liðið á næstu mánuðum ljúka þróun á keppnisréttunum þar sem íslenskur þorskur, íslenskt lamb og Ísey skyr verða í aðalhlutverkum.
Hafliði Halldórsson er framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins; ,,Það er heilmikið mál og mikill kostnaður fólginn í þátttöku á heimsmeistaramótinu og að mörgu að huga. Það er því gríðarlega mikilvægt að fá svona öflugt fyrirtæki eins og Mjólkursamsöluna til liðs við okkur, en styrkur vörumerkisins Ísey skyrs á alþjóðlegum vettvangi gefur okkur byr undir báða vængi og mun fleyta okkur langt. Með stuðningi bakhjarls sem þessa er mögulegt að umgjörð Kokkalandsliðsins verði fagleg og standist samanburð við það sem aðrar þjóðir gera fyrir sín lið enda keppir liðið stolt fyrir hönd Íslands.“
Nánari upplýsingar
Ylfa Helgadóttir þjálfari, sími 866-9629, [email protected]
Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri, sími: 772-8228, [email protected]
Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, sími 450-1180, [email protected]
Kokkalandsliðið 2018, nöfn og vinnustaðir:
Þjálfari, Ylfa Helgadóttir, Kopar
Aðstoðarþjálfari, Jóhannes S. Jóhannesson, Jamie´s Italian
Forseti KM, Björn Bragi Bragason, Síminn
Framkvæmdastjóri, Hafliði Halldórsson, Icelandic Lamb
Snædís Xyza Jónsdóttir Ocampo, Hótel Saga
Sigurjón Bragi Geirsson, Garri
Snorri Victor Gylfason, Vox Hilton hótel
Þorsteinn Geir Kristinsson, Fiskfélagið
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, Skál
Kara Guðmundsdóttir, Fiskfélagið
Denis Grbic, Grillið
Ari Þór Gunnarsson, Fiskfélagið
Garðar Kári Garðarsson, Deplar Farm
Maria Shramko, sjálfstætt starfandi
Hinrik Lárusson, Grillið
Georg Halldórsson, Sumac Grill + Drinks /ÓX
Viktor Örn Andrésson, sjálfstætt starfandi